Sumarliði er fyrsti þýski hveitibjórinn sem framleiddur og seldur er á Íslandi. Sumarliði er fullur af spennandi fyrirheitum, hann er glaður í bragði og því sérlega skemmtilegur drykkjufélagi. Hann birtist með hækkandi sól og boðar bjartari tíð. Sumarliði hentar fullkomlega til að kæla sig niður á hlýjasta tíma ársins með fersku bragði af banönum og negul, og ljúfum angan af blómum í haga. Að sjálfsögðu er Sumarliði ósíaður enda vilja bjórgæðingar njóta bragðsins til fulls og leyfa gerinu að fljóta með.

Þennan virta og skemmtilega bjórstíl má rekja til Bæjaralands en þar kallast bjór af þessu tagi Hefeweizen og nýtur gríðarlegra vinsælda. Um hríð áttu einungis æðstu aðalsmenn einkarétt á framleiðslu þessa bjórs. Framleiðslan lagðist af um skeið en var endurvakin á síðasta fjórðungi 20. aldarinnar. Sem betur fer!

Borg Brugghús hefur verið óhrætt við að leita til vina sinna og neytenda í gegnum Facebooksíðu sína (www.facebook.com/borgbrugghus) eftir aðstoð og ráðleggingum. Í slíkri leit fékkst einmitt nafnið á sumarbjórinn; „Við höfum gert þetta með síðustu bjóra, fyrst Benedikt og svo Sumarliða. Þetta er mjög skemmtileg leið og mikið af flottum uppástungum sem koma. Það er líka gaman að sjá að fólk fer strax að hugsa þetta í okkar samhengi, þ.e.a.s. það áttar sig á því að nafnið þarf að beygja sig undir ákveðnar reglur til að passa inn í bjórlínuna okkar. Sem dæmi er nær alltaf um að ræða sérnafn sem á sér ákveðna skírskotun í bjórinn, enda leggur Borg Brugghús áherslu á vöruna umfram allt annað“, segir Sturlaugur, einn af þremur bruggmeisturum Borgar. Mikill fjöldi hugmynda barst í pottinn og í framhaldi voru valin 3 nöfn sem vinir Borgar greiddu svo atkvæði um. Þórarinn Hjálmarsson, vinur Borgar (á Facebook), átti sigurnafnið. (Borg Brugghús)

Rafgullinn. Skýjaður. Létt fylling, ósætur, fersk sýra, lítil beiskja. Sítrus, negull, humlar. Ósíaður. (Vínbúðin)

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.